Spitzhundadeild HRFI

Stigahæsti hundur deildarinnar 2013 Væntanlegt!!

Basenji

Basenji er ættaður frá Mið-Afríku (Zarie) og er talin ein af elstu hundategundum sem finnast í heiminum. Uppruni basenji er afar óljós – en vitað er með vissu að merki um þá má rekja aftur til steinaldar – eða um 3.700 fyrir Krist. Það hafa m.a. fundist teikningar af basenji í grafhýsum Faróa í Egyptalandi.

Basenji hefur aðallega verið notaður sem veiðihundur í Afríku og hafa veiðimennirnir þann sið að binda bjöllur um hálsinn á hundunum, til að geta fylgst með þeim á veiðum. Góður basenji-veiðihundur er afar mikils metinn í ættbálknum og er það talið meira virði að eiga slíkan hund en eiginkonu.

Mikið hefur verið fjallað um það sem m.a. einkennir þessa tegund – en það er að þeir gelti ekki. En basenji getur í raun gefið frá sér stakt “gelt” ef  þeim bregður eða þeir verða hræddir. Þeir gefa einnig frá sér ýmis önnur hljóð og er “basenji jóðlið” alveg  einstakt sinnar tegundar.

Eins og fyrr segir er basenji veiðihundur af lífi og sál, hann er forvitinn og getur verið afar þrjóskur og sjálfstæður. Hann getur einnig átt það til að vera stríðinn og hrekkjóttur og því er mikilvægt  að eigandi hans hafi gott skopskyn.

Það gildir það sama hvað varðar samneyti barna og basenji eins og með aðra hunda, að mikilvægt er að kenna þeim hvernig þau eigi að umgangast hundinn. Nauðsynlegt er að kenna þeim að bera virðingu fyrir hundinum og þörfum hans – þannig að báðir aðilar eignist góðan félaga.

Basenji er afar vel gefinn. En það þarf að kenna honum strax frá byrjun að það kemur honum til góða að þóknast eiganda sínum. Hann er fljótur að læra það sem honum er kennt, en er tamt að hika við og hugleiða - áður en hann hlýðir viðkomandi skipun, veltir því fyrir sér hvað sé í boði og hvort virkilega sé þess virði að hlýða.

Framræktaðir hundar læra af reynslunni, að með því að þóknast húsbónda sínum hlotnast þeim matur og skjól að launum. En hundar af frumstæðum tegundum eins og basenji hafa þurft að finna sér skjól og veiða sér sjálfir til matar óháðir manninum. Þeir hafa þurft að reiða sig á eigin getu frá alda öðli og því eru eðlislægir eiginleikar afar sterkir í fari þessarar hundategundar. Forystuhæfileikar eru þeim einnig í ríku mæli í blóð borið og því er mikilvægt að minna þá stöðugt á stöðu sína innan hópsins (fjölskyldunnar).  Jákvæð þjálfun með miklu hrósi og verðlaunum er besta aðferðin við að þjálfa basenji. Þessi hundategund er tilbúin til að mæta þér á miðri leið sem félaga, en ekki að sama skapi tilbúin til að þjóna þér og hlýða skilyrðislaust. Ef basenji er að gera eitthvað sem hann á ekki að gera er best að leiða hann út úr aðstæðunum. Ef eigandanum hættir til að gera mikið mál úr því sem hann gerði rangt – þá eflist hann bara í því að verða enn frakkari næst. Ef hann er beittur harðræði eða líkamlegri refsingu – er það nokkuð sennilegt að hann líti á þig sem óvin sinn og þá verður erfitt að vinna traust basenji á ný. Hann hættir að líta á þig sem verðugan eiganda.

Mikilvægt er að hafa þá ekki lausa nálægt bílaumferð. Eins og áður segir eru þetta miklir veiðihundar og þeir skynja ekki hætttuna af umferðinni – heldur bregðast við með hinu sterka veiðieðli sínu þegar þeir skynja hreyfingu farartækjanna.

En heima fyrir eru þeir yfirleitt mjög rólegir og fyrirferðalitlir. En það er samt alltaf hægt að fá þá í leik. Einn áhugaverðasti eiginleiki þeirra er  að vinna hug og hjörtu fólksins í kringum sig. Þegar basenji kemur inn á heimili, þá líða aðeins nokkrir dagar þangað til hann hættir að vera hundur á heimilinu og verður að einum mest heillandi meðlimi fjölskyldunnar. Basenji er mjög þrifalegur og þvær sér eins og köttur - það er því engin hundalykt  af honum.  Basenji er mjög snögghærður og eru hárin á lengd við augnhár – þess vegna ber afar lítið á því þegar hann fer úr hárum.  Mikilvægt er að kenna basenji að vera í búri, en þeir geta átt það til að naga “óæskilega” hluti þegar þeir eru einir heima.

Tíkurnar lóða einu sinni á ári á tímabilinu. sept.-okt. og rakkarnir af  þessari tegund ganga einnig á þessum tíma. Talið er að fengitími basenjirakka vari í 1-3 mánuði.

En hundaeigandi sem kann að meta afar vel gefinn og uppátækjasaman hund, sem að sama skapi er mjög  kærleiksríkur með sterkan persónuleika og svífur um eins og hindin - hundaeigandi sem býr yfir mikilli þolinmæði og er tilbúinn til að takast á við afar líflegan og greindan hund sem reynir til hins ýtrasta á alla þætti í fari þínu – eru þeir bestu eigandur sem basenji getur hugsað sér. Þeir sem eru að leita sér að kjölturakka eða undirgefnum hundi sem hlýðir þeim í einu og öllu - ættu ekki að líta á þessa tegund sem vænlegan kost.

Ekki hafa enn verið settar fomlegar kröfur til ræktunardýra, en þeir basenji sem notaðir hafa verið til ræktunar fram að þessu hafa verið augnskoðaðir, mjaðmamyndaðir ásamt reglulegum sykurmælingum í þvagi.

Texti: Ásta B. Pétursdóttir

Basenji ræktendur