Spitzhundadeild HRFI

Stigahæsti hundur deildarinnar 2013 Væntanlegt!!

Chow Chow

Chow chow er hundategund sem margir þekkja, bæði vegna sérstaks útlits og nafns.

Flestir sjá fyrir sér leikfanga-bangsalegan hund með bláa tungu þegar tegundin er nefnd, en því miður fylgja tegundinni líka ýmsir fordómar og miskilningur.

Chow chow er auðveldur hundur í sambúð.  Hann krefst ekki svo mikils af eiganda sínum, þannig að hann hentar vel þeim sem vilja ljúfan og traustan selskapshund.  Það má þó ekki halda að chowinn sé latur þó að hann þurfi ekki fleiri klukkutíma hreyfingu á dag.  Hann fylgir glaður eiganda sínum í löngum göngutúrum ef með þarf.

Margir hafa heyrt um þrjósku chow chow og þeir lenda iðulega á lista yfir ”heimskustu” hundategundirnar.  Það er staðreynd að chowinn er mjög sjálfstæður hundur og það er honum ekki eðlislægt að hlýða minnstu bendingu eiganda síns, en óhlýðinn er hann alls ekki. Sennilega ekki hundategund fyrir þann sem stefnir langt í hlýðnikeppnum, en samt er hægt að kenna honum flest sem þar fer fram. Margir chowar hafa góðan sporvilja, svo að bæði veiðispor og mannaleit geta verið fínar greinar til að þjálfa þá upp í. Í Svíþjóð er til dæmis einn chow chow í spor-vinnu hjá heimavarnarliðinu.

Chow chow var upprunalega, meðal annars notaður sem veiðihundur og enn í dag hefur hann mjög sterka veiðihvöt. Vegna þess er mikilvægt að kenna ungum hvolpum að láta að stjórn án taums, þannig að hann kunni það er hann verður eldri.
Chowinn verður, líkt og aðrar hundategundir að vera alinn upp til að verða þægilegur heimilishundur. Það er eiginlega enginn munur á uppeldi því sem þeir þurfa og aðrar hundategundir.  Chow chow verður nákvæmlega eins sérlundaður og þrjóskur og eigandi hans leyfir honum að verða, en vel upp alinn og umhverfisvaninn chow chow er dásamlegur félagi.

Margir vilja vita hvort chow chow sé góður með börnum.  Í mörgum hundabókum er staðhæft að svo sé ekki,  en mikið af barnafólki er tilbúið að skrifa upp á að sambúðin með chow og börnum þeirra gengur mjög vel. Alveg eins og með aðra hunda skiptir þó máli að hundurinn fái að umgangast kurteis börn og skilningsríka foreldra. Þó chowinn sé sætur og knúsilegur, þarf hann líkt og aðrir hundar að eiga stað þar sem hann fær að vera í friði fyrir áreiti þegar hann hefur fengið nóg.

Chow chow lyndir oftast vel við aðra hunda. Þó getur sérstakt útlit hans oft haft espandi áhrif á hunda sem eru ekki vanir tegundinni. Chowinn er nefnilega sjaldan undirgefinn hundur, heldur er vanur að vera yfirvegaður og áhugalaus um aðra hunda.
Algengir fordómar um chow chow er að tegundin sé árásargjörn.  Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það er sjaldgæft að hitta árásargjarnan chow í dag. Þessir fordómar eiga sennilega uppruna sinn í því að á upphafsárum tegundarinnar í Svíþjóð voru hundarnir þó nokkuð örari en þeir eru í dag.  Góð ræktun hefur gert það að verkum að í dag hefur tegundin gott jafnlundargeð. Varast skal að rugla saman eðlislægri ómannblendni til ókunnugra, við hræðslu.   

Tegundin er oft sögð vera einsmanns-hundar. Réttara væri að segja að chowinn er mjög tengdur öllum í hans fjölskyldu. Fjölskylduvinum er einnig fagnað glaðlega, meðan áhugaleysi einkennir viðbrögð við ókunnugum.

Fyrir hvern er þá chow chow ?  ja, hvern sem er sem vill fá selskapshund sem getur hugsað sjálfstætt, elskar jörðina sem húsbóndinn gengur á án þess að vera uppáþrengjandi eða ósjálfstæður.

Texti: Jessica Björling
Þýtt með leyfi höfundar af Tryggva Erlingssyni

Chow Chow ræktendur